Vísindaleg aðferð

Árlega höldum við vísindavöku í smiðju. Það má segja að það sé hátíð vísindanna hjá okkur. Þá leggjum við okkur fram við að læra og rifja upp viðurkenndar vinnuaðferðir vísindamanna við rannsóknir. Þegar verkefnin bjóða svo upp á það utan vísindavökunnar þá að sjálfsögðu nýtum við sömu aðferðir og leggjum okkur fram við að safna gögnum, vinna úr þeim og miðla með viðurkenndum hætti. Áherslur okkar á þessu sviði koma úr verkefninu Vísindavaka.

Vísindi í smiðju

Ferli vísinda er hægt að fylgja í eftirfarandi skrefum.

Tilgangur

Í upphafi veltum við viðfangsefninu fyrir okkur – Hvað erum við að kanna, hvað langar okkur að skoða? Af hverju erum við að gera þetta? Hvert er vandamálið? Hver er rannsóknarspurningin okkar? Er hægt að svara þessari spurningu? Athugið að kanna aðeins eina breytu í hverri tilraun.

Tilgáta og hugmyndir

Áður en þið hefjist handa við tilraunina skulið þið velta fyrir ykkur hvert svarið við rannsóknarspurningunni ykkar er. Hver er líkleg lausn eða svar við spurningu ykkar? Hvaða hugmyndir höfum við um rannsóknarefnið? Hvað haldið þið að gerist? Hvert er líklegasta svarið við rannsóknarspurningunni?

Athugun, könnun eða gagnasöfnun

Gagnasöfnun getur farið fram með beinum tilraunum, nákvæmum mælingum og heimildakönnun. Við framkvæmd tilraunina skal gæta fyllstu nákvæmni í öllum vinnubrögðum og mælingum. Skráið hjá ykkur allar upplýsingar.

Greining og úrvinnsla

Mælingar eða gögn eru borin saman við aðrar sambærilegar mælingar og í kjölfarið er hægt að draga ályktanir um viðfangsefnið. Hvað gerðist í tilrauninni? Skráið það sem gerist og allar nauðsynlegar upplýsingar.

Ályktanir og niðurstöður

Að lokum skal draga saman helstu niðurstöður. Veltið fyrir ykkur hvað gerðist? Hver er niðurstaðan? Hvert er svarið við rannsóknarspurningunni? Var tilgátan rétt? Fór eitthvað úrskeiðis? Væri hægt að rannsaka viðfangsefnið frekar? Hvaða spurningar vakna við gerð rannsóknarinnar? Hverjum þeirra viljum við svara? Væri hægt að gera framhaldstilraun?

Miðlun upplýsinga

Hvernig kynnum við niðurstöður okkar? Hverjum segjum við frá? Hvernig segjum við frá? Skrifum við grein? Segjum við félögum frá? Gerum við myndband?  Vísindafólk rannsakar og deilir vinnu sinni með öðrum. Með því að miðla upplýsingum byggjum við upp þekkingu sem er grundvöllur vísindasamfélags.