Nauðsynjar – Er jörðin í hættu

Undan farin ár hefur 9. bekkur farið í gegnum verkefni hjá okkur undir heitinu Jörðin í hættu. Verkefnin byggja hæfniviðmiðum úr náttúru- og samfélagsgreinum og reynslan af þessari vinnu er ein mikilvægasta hvatningin okkar til frekari samþættingar námsgreina þegar kemur að skipulagi. Í síðasta mánuði fór 9. bekkurinn okkar í gegnum fyrstu eininguna í þessu efni sem heitir Nauðsynjar.

Verkefnið gengur í stuttu máli út á það að nemendur þurfa að reikna út hvað 20 manns þurfa til að lifa á rannsóknarstöð í 5 ár á ákveðnum stað með enga möguleika á að fá utanaðkomandi stuðning. Nemendur vinna í hópum og aðstæður eru mismunandi þannig að hóparnir þurfa að gera ráð fyrir því þegar þeir meta hvað er nauðsynlegt að taka með í upphafi, hvað er að finna á staðnum, hvað er mögulegt að rækta o.s.frv.

Þetta árið voru rannsóknarstöðvar settar upp:

Í Amazon frumskóginum, á túndrunni í Síberíu, í Sahara eyðimörkinni, í Surtsey, á tunglinu, á suðurskautslandinu og á Mars.

Kvikmyndin Martian var notuð sem kveikja og fyrsta verkefið voru umræður í hópum sem tengdust myndinni. Svo var farið af stað stóra verkefnið.

Afurðir vinnunnar hjá hópunum eru meðal annars líkan af rannsóknarstöðinni unnið úr hlutum  s.s. umbúðum sem falla til á heimilum og í skólanum og veggspjald. Frágangur á þessum tveimur hlutum miðast við það að afurðirnar séu settar upp sem sýningargripir á göngum skólans.

Allir hóparnir kynntu verkefnið sitt og niðurstöður rannsóknarvinnunnar um hvað væri nauðsynlegt og höfðu þá líkanið og veggspjöldin sem stuðning í kynningunni, auk þess sem nemedur áttu að skila einstaklings skýrslu um vinnuna.