Um þróunarverkefnið

Smiðjan í skapandi skólastarfi 2017-2019 er þróunarverkefni sem gengur út á að breyta kennsluháttum í unglingadeild, samþætta námsgreinar og auka samstarf kennara og nemenda með áherslu á sköpun, lykilhæfni og nýtingu upplýsingatækni í námi.

Það er okkar skoðun að skólaþróun sé einn mikilvægasti þáttur skólastarfs því skóli sem þróast ekki í takt við lífið fyrir utan veggi skólans, samfélagið sem hann tilheyrir fer einhvernveginn að ýta undir þá tilfinningu að það sem verið sé að gera innan hans hafi ekki tilgang. Það er gagnstætt þeim drifkrafti sem verður til þegar fyrir þegar nýsköpun er í gangi og það sem verið er að gera er í takt við tímann.

Við vitum að tækniþróun er drifkraftur í þróun samfélagsins og hún verður að fá rými til að verða drifkraftur í þróun skólastarfs.

Strúktúrinn í kringum nám nemenda þarf að bjóða upp á það að nýjungar séu teknar inn, það sé rými til að prófa hluti, ná árangri og mistakast.

Í smiðjukennslu vinna kennarar saman í teymi, undirbúa kennsluna saman, kenna saman og skipta með sér vöktum í kennslunni. Kennslan fer fram í þemabundnum lotum sem taka 2-4 vikur. 

Námsgreinarnar íslenska, samfélagsgreinar og náttúrugreinar eru samþættar í smiðju og birtast undir smiðjuheitinu í stundaskrá nemenda. 

 

SAMÞÆTTING

Námsgreinarnar sameinast um margt sérstaklega þegar kemur að aðferðum, vinnulagi, verkferlum og miðlun upplýsinga. Með samþættingu og samstarfi verðum við meira meðvituð um það sem við erum að gera gegnum gangandi í öllum námsgreinum. Nemendur fá skýrari mynd af því sem er alltaf ætlast til af þeim og viðmiðin verða betri. Þetta þýðir að minni tími fer í að útskýra vinnulag og verkferla og meiri tími gefst til að vinna með efnisatriði á þann hátt sem við viljum og þjálfa fjölbreytta færni. Dæmi um hluti sem eru hluti af öllum námssviðum og skipa stóran sess í smiðju eru:

RITUN

Í ritun mikilvægt að nemandi hafi á valdi sínu færini til að beita mismunandi og viðeigandi textasniði eftir því sem verkefnið sem hann stendur frammi fyrir bíður upp á. 

TJÁNING OG MIÐLUN

Góð færni í tjáningu og miðlun upplýsinga er mikilvæg í allri vinnu í Smiðju. Móðurmálið er notað  í rituðu, töluðu máli, í upptökum og kynningum og verður þannig að lykilverkfæri í smiðjuvinnunni.

LÆSI

Textar eru mismunandi og við lesum þá í misjöfnum tilgangi. Það eru ýmsar aðferðir í boði við lestur og ýmislegt hægt til að greina aðalatriði, átta sig á samhengi o.fl. En læsi snýst ekki bara um lestur á texta. Við leggjum áherslu á að nálgast læsi í víðu samhengi og þjálfa læsi á fjölbreytta miðla.

UPPLÝSINGATÆKNI

Upplýsingatækni er notuð á mjög fjölbreyttan hátt í smiðju. Fyrirlögn verkefna, skil og upplýsingaflæðið milli kennara og nemenda fer fram á rafrænum vettvangi. Tæknin er svo nýtt sem verkfæri til að skrá og safna upplýsingum, vinna úr þeim og til að miðla. Yfirleitt er nýting tækninnar hluti vinnunar en ekki aðalatriðið. Allir nemendur í Smiðju hafa iPad spjaltölvu sem verkfærakistu fyrir námið sitt.

AÐALNÁMSKRÁ OG HÆFNI

Í smiðjunni tengjum við hæfniviðmið aðalnámskrár grunnskóla við verkefnin og verkefnaheftin sem nemendur eru að vinna. Við metum svo hæfniviðmiðin beint. Við metum líka hvert og eitt verkefni sem nemendur vinna. Það gefur okkur kost á endurgjöf á almenn gæði verkefnisins. Hæfniviðmið úr mörgum greinasviðum geta tengst sama verkefni og gera það alltaf þegar við horfum á vinnu hverrar lotu fyrir sig í heild. Þegar þessi hæfniviðmið eru metin út frá verkefnavinnuni færist matið undir viðeigandi námssvið og birtist nemendum þannig. Þannig verða þau viðmið sem koma úr greinanámskránni samfélagsgreinum undir því sviði í hæfnikortinu en þau sem er að finna undir upplýsinga- og tæknimennt undir því sviði í hæfnikortinu þó svo að þau hafi verið þjálfuð með vinnu í sama verkefninu.


Þegar við veltum fyrir okkur spurningunni: "Hvað gildir verkefni?" er svarið: Það gildir fyrir þau hæfniviðmið sem við það eru tengd og þau geta verið úr mismunandi greinasviðum. Þannig má líka segja að öll verkefni gildi jafnt og á sama tíma mismunandi það er mikilvægt að temja sér það hugarfar að grá alltaf sitt besta til að ná árangri í Smiðju.